Umsagnir

Ýmislegt um söngferðir kórsins

  • Regarding Tónlist - Hljómdiskar
  •  
  • Vor 2000
    Karlakór Reykjavíkur.
    Stjórnandi: Friðrik S. Kristinsson.
    Einsöngur: Sigrún Hjálmtýsdóttir, Björn Björnsson.
    Píanó: Anna Guðný Guðmundsdóttir.
    Upptaka og hljóðvinnsla: Halldór Víkingsson.
    Upptakan fór fram á tónleikum í Ými, tónleikasal, dagana 6.-13. maí 2000.
    Framleiðsla: Tocano, Danmörku.
    Útgefandi Karlakór Reykjavíkur KKR001.

    Á ÞESSUM hljómdiski höfum við fyrstu vortónleika Karlakórs Reykjavíkur í nýja tónleikahúsinu sínu. Og eins og segir í bæklingi
    "er þess freistað að koma til skila þeirri sérstöku stemmningu sem ævinlega skapast milli áheyrenda og flytjenda í tónleikasal. Einnig er gerð tilraun til að koma hinum einstaka hljómi í Ými, Tónlistarhúsi Karlakórs Reykjavíkur, til skila í hljóðritun þessari".
    Allt tekst þetta vel í lifandi flutningi kórsins og einsöngvara. Söngskráin verður að teljast mjög hefðbundin, þó að yngstu lögin hafi verið sérstaklega samin fyrir kórinn á síðasta ári.
    Um það bil helmingur laganna er alþekktur, gömul og góð lög, og svo algeng á söngskrám karlakóra (þ.ám. Karlakórs Reykjavíkur) að maður gæti haldið að þau væru ómissandi. Og kannski eru þau það. Ég taldi ein sex lög á þessum nýja diski sem er að finna á fjögurra ára gömlum diski sama kórs, Íslands lag.

    Sá "þjóðlegi" titill átti raunar vel við efnisskrána (Ísland! Ísland! Eg vil syngja!, Landið vort fagra, Íslands lag, Ísland ögrum skorið, Draumalandið, Ísland - svo má bæta við tveimur á nýja diskinum: Ísland farsælda frón og Yfir voru ættarlandi). Og við höfum hér fleiri fasta liði, svo sem Sefur sól hjá ægi, Sjá dagar koma, Nú hnígur sól og Brennið þið vitar. Og allt er þetta gott og blessað og mjög vel sungið (enda ættu þeir að kunna þetta!) og skírskotar beint til ættjarðarástarinnar í íslenskum brjóstum.

    Sigrún Hjálmtýsdóttir er hér (eins og á áðurnefndri plötu) með glansandi einsöng í Draumalandinu, Sjá dagar koma, Íslands lagi, Ave María (Kaldalóns) og Þig ég unga (þjóðlag í útsetningu Jóns Ásgeirssonar), Vísum Íslendinga og skondinni Vorvísu eftir Atla Heimi við texta Jónasar Hallgrímssonar (sú seinni a la Jón Þorláksson); einnig í lagi Gunnars Þórðarsonar og loks í vel þekktri "aríu" úr Leðurblökunni, þar sem hún er í S-inu sínu og endar fínan konsert á viðeigandi nótum.

    Loks er að geta Björns Björnssonar, sem syngur einsöng í mögnuðu lokaatriði Þrymskviðu Jóns Ásgeirssonar (söngur Þórs og kórs).
    Björn hefur volduga bassarödd - og góð lungu, sem kom fram í aukalaginu (þau eru reyndar sex) Hraustum mönnum. Auk Jóns Ásgeirssonar, Atla Heimis og Gunnars Þórðarsonar á Gunnar Reynir Sveinsson hér tvö lög við texta Halldórs Laxness (Haldiðún Gróa hafi skó og Ríður, ríður hofmann) og Páll P. Pálsson lag við texta Þorsteins Valdimarssonar (Blómseljan).

    Þessi söngskemmtun er öllum til sóma. Karlakór Reykjavíkur er mjög góður og "stabíll" kór (ef einhver skyldi ekki vita það!) og syngur margt virkilega fallega undir sínum ágæta stjórnanda.
    Og þá er bara að óska kórnum til hamingju með konsertinn og tónleikahúsið sitt, sem virðist standa undir væntingum.

    Oddur Björnsson

    - Greinasafn Morgunblaðsins 4. október 2000

 

  • Regarding Söngferðir
  •  


  • Sjá: www.http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1331384
    - Ameríka 1960


    Sjá: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1159121
    - timarit.is

 

Copyright © 2024 Karlakór Reykjavíkur